Matur

Heimatilbúið hrökkbrauð

maí 17, 2017

Í vikunni ákvað ég að henda í heimatilbúið hrökkbrauð. Ég átti enga uppskrift og nennti alls ekki út í búð svo ég ákvað bara að skella því sem mér fannst spennandi í skál og sjá svo útkomuna. Ég hafði ekki hugmynd um að ég væri að búa til besta „mjúka“ hrökkbrauð sem ég hef nokkurn tímann smakkað en viti menn! Þetta verður sko búið til aftur og aftur.

Innihald:

3 dl hveitikím
1 dl haframjöl
1 dl sólblómafræ
1/2 dl sesamfræ
1/2 dl hörfræ
25 – 30 saxaðar möndlur
1/2 dl af blautum chia fræjum
3-4 msk lífrænt hunang
1 1/2 dl vatn
saltflögur

Öllu Blandað saman í skál og ath. með chia fræjin – ég setti bara botnfylli í desilítramál og fyllti uppí 1/2 dl með vatni og beið eftir að þau sugu vatnið í sig, þá gat ég notað þau. En annars er öllu bara blandað saman, skiptir engu máli í hvaða röð og skellt á bökunarplötu.

Svo er blöndunni bara þjappað saman og stráð saltflögum yfir. Þegar ég tók þessar myndir þá finnst mér ég hafa sett aðeins of mikið af salti en auðvitað er það bara persónubundið.

Platan sett inn í ofn á 180° (ég setti yfir og undir hita með blæstri) í sirka 15-20 mínútur en allir ofnar eru misjafnir. Ég mæli tímann ekki beint, ég fylgist bara með könntunum. Um leið og þeir eru orðnir brúnir og stökkir þá tek ég það út.
Svo er það bara að smyrja með smjöri og osti og voila ! Svakalega gott 😀
Sæta bragðið frá hunanginu og salta bragðið frá saltinu er æðislegt.

Verði ykkur að góðu og endilega látið mig vita hvernig ykkur finnst smakkast ! <3

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply